11/23/2018
Í lok ágúst mánaðar 2018 hafði Gerold Büschen samband við Einar Magnús í kjölfar fréttaumfjöllunar um verkefnið Að baki mánans sem áður hafði vinnuheitið Svartur sandur í þýska dagblaðinu Nordsee Zeitung. Þegar hann las umfjöllunina rifjaðist upp fyrir honum að forfaðir hans Georg Büschen var skipstjórinn á Friedrich Albert. Í umfjöllun Nordsee Zeitingum var hvatning til afkomenda skipbrotsmanna til að hafa samband við Einar Magnús því hann væri að leita af heimildum um mennina og ekki hvað síst líf þeirra eftir atburðina á Íslandi.

Það leið ekki á löngu uns Einar Magnús var í þriðja skiptið á skömmum tíma kominn upp í flugvél á leið til Þýskalands til að hitta Gerold því í samtölum þeirra í milli kom í ljós að hann bjó yfir ómetanlegum heimildum og fróðleik. Gerold bauð Einari Magnúsi ásamt kvikmyndatökufólki Radio Bremen í heimsókn til sín en Radio Bremen hafði óskað eftir því að fá gerðan sjónvarps- og útvarpsþátt um verkefnið Svartur sandur.
Einar Magnús sem á þessum tíma var að vinna að ítarlegri samantekt handritsins, svokallað Treatment, en enn vantaði ákveðin atriði inn i þá samantekt og þá ekki hvað síst heimildir skipbrotsmannanna sjálfra um þessar 11 daga hrakningar á Skeiðarársandi. Það var því stór og mikil stund þegar Gerold leiddi fyrir sjónir Einars afrit sem hann hafði gert af endurminningum forföður síns, skipstjórans, um hrakningarnar. Georg hafði skrifað þær 3 árum eftir atburðina á Íslandi og tileinkað skrifin þeim þremur mönnum sem létust.
Það voru nánast allir búnir að gleyma að þetta væri til – nema Gerold. Skrif sem geyma ítarlega frásögn skipstjórans af þeim ótrúlegu raunum sem mennirnir gengu í gegnum á Íslandi.

BIrt þann:
23/11/2018
í flokknumHandritaskrif